Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 239 . mál.


280. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)



1. gr.


    Við 2. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr töluliður, sem verður 6. tölul., svohljóðandi:
    6. Skíðalyftur.
    

2. gr.


    6. gr. laganna fellur niður.
    

3. gr.


    Eftirtaldar breytingar verða á 11. gr. laganna:
    2. tölul. verður svohljóðandi:
    2. Af munum sem vátryggðir eru skv. 1.–5. tölul. 2. mgr. 5. gr., 0,20‰.
    3. tölul. verður svohljóðandi:
    3. Af munum, sem vátryggðir eru skv. 6. tölul. 2. mgr. 5. gr., reiknast iðgjald eftir reglum sem stjórn stofnunarinnar setur.

4. gr.


    Á eftir 1. málsl. 21. gr. laganna kemur nýr málsliður svohljóðandi: Enn fremur er stjórninni heimilt að veita styrki til björgunarsveita vegna starfsemi sem viðurkennd er af Almannavörnum ríkisins.
    

5. gr.


    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:
    Á árinu 1994 er Viðlagatryggingu Íslands heimilt að greiða bætur vegna tjóns sem varð í snjóflóðum veturinn 1994 á skíðalyftum á Ísafirði. Greiða skal bætur miðað við að skíðalyfturnar hefðu verið tryggðar samkvæmt lögum, sbr. 6. tölul. 2. mgr. 5. gr., að frádreginni eigin áhættu skv. 10. gr. og iðgjaldagreiðslu vegna ársins 1994.
    

6. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið telur nauðsynlegt að breyta lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992, þannig að skíðalyftur sé framvegis skylt að viðlagatryggja. Það þýðir að tjón sem verður á skíðalyftum vegna eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða er bótaskylt. Með þessari breytingu eru öll tvímæli tekin af um það að viðlagatryggja skuli skíðalyftur en um þetta atriði hefur verið nokkur ágreiningur. Þess munu einnig dæmi að eigendur skíðalyftna hafa ekki getað tryggt skíðalyftur gegn náttúruhamförum.
    Þar sem óvissu er eytt um þetta atriði með þessari breytingu þykir og rétt að bæta við lögin ákvæði til bráðabirgða sem heimila Viðlagatryggingu Íslands að greiða bætur vegna tjóns sem varð á skíðalyftum á Ísafirði í snjóflóðum eins og skyldutryggingin hefði tekið gildi frá 1. janúar 1994.
    Til að ákvæði laga um Viðlagatryggingu Íslands samrýmist reglum EES-samningsins er nauðsynlegt að fella úr gildi heimild Viðlagatryggingar til að taka að sér vátryggingu annarra eigna en þeirra sem skylt er að vátryggja. Þess vegna er í frumvarpinu gert ráð fyrir að 6. gr. laganna falli niður og nauðsynlegar samhliða breytingar gerðar á 11. gr. laganna.
    Við setningu laganna um Viðlagatryggingu var gerð breyting á 19. gr. eldri laga um heimild stjórnar til að veita styrki til björgunarsveita vegna starfsemi sem viðurkennd væri af Almannavörnum ríkisins. Í skýringum með frumvarpinu við greinina, sem er nú 21. gr. laganna, er ekki að sjá að breyta hafi átt framkvæmd styrkveitinga til varnar tjóni af völdum náttúruhamfara. Engu að síður hefur stjórnin, með stoð í nýrri 21. gr., hafnað styrkumsóknum frá björgunarsveitum með þeim rökum að heimildin sé fallin niður. Því er talið nauðsynlegt að setja að nýju inn í lögin beina heimild til stjórnar varðandi þetta efni.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum


nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands.


    Með frumvarpinu er lagt til að skylt verði að tryggja skíðalyftur. Þá er í ákvæði til bráðabirgða afturvirkt ákvæði um að Viðlagatryggingu Íslands verði heimilt að greiða bætur vegna tjóns sem varð á skíðalyftum á Ísafirði í snjóflóðum veturinn 1994. Loks er í samræmi við samning um EES felld niður heimild Viðlagatryggingar til að vátryggja aðrar eignir en þær sem skylt er að vátryggja. Síðasttalda breytingin er ekki talin hafa áhrif á fjárhag Viðlagatryggingar eða ríkissjóðs.
    Gera verður ráð fyrir að stjórn Viðlagatryggingar ákveði iðgjöld vegna skíðalyftna þannig að þau standi að jafnaði undir hugsanlegu tjóni. Afturvirk ákvæði fela hins vegar í sér kostnað fyrir Viðlagatryggingu Íslands nýti stjórn trygginganna heimildina. Viðlagatrygging hefur ekki metið tjónið og er því á þessu stigi ekki hægt að segja með vissu um hve háa fjárhæð er að ræða. Ekki verður annað séð en að ákvörðun um að bæta tjónið gangi á tryggingarsjóði Viðlagatryggingar. Frumvarpið mun því að óbreyttu ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs á árinu 1994.